Til kærleiksþjónustu reiðubúin, í tilefni 25 ára afmælis Djáknafélags Íslands

Nú í vor fagnaði Djáknafélag Íslands 25 ára afmæli, en félagið var stofnað 5. apríl 1995. Sextíuogtveir djáknar hafa hlotið vígslu og eru um tuttugu starfandi í dag.

Það er oftar en ekki sem við erum spurð: Hvað er djákni? Eða hvort að djákni sé hálfgerður prestur? Við erum einnig spurð um hvort við tengjumst djáknanum á Myrká? Til útskýringar þá er hann ekki talinn með í okkar vígsluröð. Aftur á móti er spurning hvort við þyrftum ekki að hugsa til hans af kærleika og biðja fyrir minningu hans? Í sögunni var hann ungur maður og ástfanginn sem lenti í voveiflegu slysi en sálin villtist í myrkri sem hafði þær alvarlegu afleiðingar, sem sagan hermir.

Orðið djákni er dregið af orðinu diacon sem þýðir þjónn sem þjónar náunga sínum í kærleika með samkennd (compassion) og hluttekningu (emphathy).

Það hefur bæði verið styrkur okkar djákna og veikleiki að við erum með ólíka faglega menntun og bakgrunn. Sum okkar hafa tekið BA í guðfræði sem djáknar, en aðrir hafa tekið djáknafræðin sem (diploma) til viðbótar við aðra fagmenntun eins og hjúkrunarfræðinga, kennara, félagsráðgjafa, lýðheilsufræðinga eða aðra þá menntun sem hægt er að nýta djáknafræðin til viðbótar í starfi.

Við djáknar þjónum í söfnuðum í barna-, unglinga- og eldriborgarastarfi, á sjúkrahúsum, á hjúkrunarheimilum, í heilsugæslu, í skólum og ýmsum félagasamtökum svo eitthvað sé nefnt.

Þó störf okkar geti verið ólík á hverjum stað er sálgæsla sameiginleg áhersla okkar og fagleg nálgun ásamt því að vinna í samfylgd og samkennd sem byggir á kærleika í verki, óháð neinni aðgreiningu eða trú. Í okkar huga erum við öll börn Guðs og hvert og eitt okkar er elskuvert hver sem við erum eða hvaðan sem við komum.

Þó svo að kærleiksþjónustuverkefnin séu fjölmörg þá hafa djáknar í undantekninga tilfellum fengið 100% störf. En af því að við störfum af hugsjón og gleði, finnum við okkur bara önnur hlutastörf til að ná nauðsynlegri framfærslu.

Í dag ber mikið á andlegri vanlíðan í samfélaginu. Færri vita að kirkjan tekur á móti þeim sem til hennar leita og er einfalt að hringja í kirkjuna sína til að leita styrks. Eftir áföll eða missi erum við til staðar til að styðja fólk að fara í gegnum sorgina/áföllin, hlusta og fylgja þeim eftir. Sorgin tekur sinn tíma hún er ekki sjúkdómur en við getum fundið fyrir henni bæði í líkama og sál. Þá er gott að hafa einhvern við hlið sér til að hlusta og styðja sig í gegnum þann tíma sem hún er hvað sárust til að læra að lifa með henni.

Þó svo oft sé talað um að þjóðin sé að fara í gegnum erfiðleika sem koma fram í andlegri vanlíðan þá eru við ekki alltaf veik þó okkur líði illa eða kvíðin, heldur getur það verið hluti af lífinu að takast á við erfiðleika. Gott er að vita að að lífið er upp og niður hjá öllum og allir fara í gegnum lífsins ólgusjó einhvern tíma á ævinni. Þetta kallar á þol og seiglu sem við þurfum að vera meðvituð um og virkja á þeim stundum. Það er ótrúlegt hvað ein lítil bæn hjálpar. Að gefa sér tíma, loka augunum lyfta huga og hjarta upp í kærleiksljós Krists og biðja eða bara vera, eitt andartak. Þetta er aðgengilegt fyrir alla, alltaf og hvar sem er.

Starf djákna á hjúkrunarheimilum er m.a. að viðhalda/auka lífsgæði íbúana (sem eru þau viðkvæmustu í okkar samfélagi) með að virkja andlegra færni sem felst m.a. í bænaiðkun, helgistundum, minnisþjálfun, í máli og myndum, fara í gegnum lífssögur, hlusta á fjölbreytta tónlist, þjálfa hugrækt, slökun og öndunaræfingar svo eitthvað sé nefnt. Einnig er það í hlutverki okkar djáknanna að sinna persónulegri sálgæslu og fylgja einstaklingum í gegnum lífslok og hjálpa aðstandendum þeirra í þeim aðstæðum hvernig þeir geti stutt ástvin í gegnum lokastundir lífsins. Á hjúkrunarheimilum erum við eins og stór fjölskylda sem vinnum stöðugt að hlúa að íbúum og byggja upp traust.

Í niðurskurði stjórnvalda á rekstri hjúkrunarheimila eru djáknar það fyrsta sem skorið er niður. Í dag er aðeins hjúkrunarheimilið Sóltún sem enn hefur starfandi vígðan djákna. Það má velta því fyrir sér hvort yfirvöld hafa ekki áttað sig á að manneskjan er ekki bara líkaminn heldur,erum við félagsverur með tilfinningar, sál, anda og trúarþörf sem þarf að sinna ekki síður en skrokknum. Til dæmis þegar við förum saman með bænirnar með íbúum (sem oft á tíðum hafa misst mikla færni vegna heilabilunar eða alzheimers) þá muna þau þær og taka undir og upplifa þá vellíðan sem hefur varðveist í minni þeirra frá barnæsku. Þetta kallar fram vellíðunarhormón sem þau taka með sér inn í daginn, eykur lífsgæði og gerir allt líf þeirra betra.

Þegar horft er um öxl þá er það þakklæti fyrst og fremst sem stendur upp úr, að fá að þjóna öllu því yndislega fólki sem við höfum mætt á þessum árum bæði í gleði og sorg.

Verið er að vinna að stefnumótun díakoníu- eða kærleiksþjónustu kirkjunnar. Mikið af því góða starfi sem veitt er af starfsfólki kirkjunnar fer hljóðlega fram. Við vitum að það eru margir sem gætu nýtt kærleiksþjónustu kirkjunnar betur og vonumst við til að djáknum verði fjölgað til að geta verið til staðar og þjóna þeim sem þurfa í meiri mæli í framtíðinni. Því uppskeran er mikil en verkamennirnir fáir.

Að lokum vil ég óska landsmönnum öllum og þjóðum heims gleðilegra jóla og blessunar á nýju ári.

Höfundur er formaður Djáknafélags Íslands