Um félagið

Djáknar er ný stétt sem tekið hefur til starfa innan kirkjunnar í seinni tíð. Megin hlutverk hennar er að efla félagslega þjónustu á vegum safnaða, stofnana og félagasamtaka. Félagslegt starf á vegum kirkjunnar kallast almennt kærleiksþjónusta og þau sem vígð eru til þessara starfa kallast djáknar. Oft er talað um þjónustuna sem náungakærleika, boðun Guðs orðs í verki eða félagslegt starf í kristnum anda. Jesús Kristur, orð hans og verk, er fyrirmynd þjónustunnar. Hugtakið djákni er íslenskuð mynd gríska hugtaksins diakonos, sem þýðir þjónn.

Köllun og vígsla

Djákni er kallaður til starfa við söfnuð, stofnun eða til félagasamtaka.

Biskup Íslands staðfestir köllunina með vígslu.

Hlutverk

Djákni sinnir bæði líknar- og fræðsluþjónustu.

Líknarþjónusta felur í sér að verja rétt þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu, að styðja þá sem eru einmana, sjúkir eða félagslega einangraðir.

Fræðslan getur falist í að annast barna-og æskulýðsstarf safnaðar, öldrunarstarf og fleira. Tengsl djákna við helgihald er mikilvægt því þangað sækir hann styrk til þjónustunnar.

Skrúði

Við helgihald notar djákni ölbu, sem er hvítur síður kyrtill. Við hann er oftast notaður lindi. Yfir ölbuna ber djákni stólu sem hvílir á vinstri öxl og er tekin saman á hægri mjöðm. Stólan er í lit kirkjuársins hverju sinni. Jafnframt notar djákni græna skyrtu með hvítum hringkraga við störf sín.

Djáknafélag

Djáknafélag Íslands var stofnað 5. apríl 1995. D.Í. er fagfélag en djáknar tilheyra ýmsum stéttarfélögum. Félagið heldur fundi að jafnaði einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina.

Tilgangur félagsins er að vera málsvari félagsmanna D.Í. og gæta hagsmuna þeirra og kjara í öllu því er varðar störf þeirra og embætti, réttindi og skyldur.

(úr 3. gr. laga D.Í.)

Merki D.Í.

Merki djáknafélagsins er kross og þrír sólstafir innan hrings. Hringurinn er tákn eilífðarinnar, krossinn er Kristur og sólstafina þrjá má hugsa sér sem hinn þríeina Guð eða sem helgihaldið, vitnisburðinn og kærleiks­þjónustuna.

Nám

Djáknanám hófst við guðfræðideild Háskóla Íslands árið 1993. Hægt er að stunda 30 eininga starfsnám en þá þarf viðkomandi að hafa lokið háskólaprófi innan ákveðinna deilda. Jafnframt er 90 eininga BA nám í boði. Starfsþjálfun er á vegum þjóðkirkjunnar og fer oftast fram jafnhliða náminu.

Upplýsingar um djáknanámið er hægt að fá á skrifstofu guðfræðideildar Háskóla Íslands og á heimasíðu Háskólans.