Djáknavígslur í seinni tíð

Fyrsta djáknavígsla í hinni evangelísku lúthersku kirkju á Íslandi í seinni tíð fór fram í Miðgarðakirkju í Grímsey 23. apríl 1961 en þá vígði Herra Sigurbjörn Einarsson Einar Einarsson til starfa fyrir söfnuðinn í eyjunni. Verkefni hans fólust í almennu safnaðarstarfi enda enga prestsþjónustu að fá nema frá Akureyri. Fyrsta konan sem fékk vígslu til starfa í íslensku kirkjunni var Unnur Halldórsdóttir sem var vígð sem djákni í Dómkirkjunni 28. nóvember 1965. Unnur hafði stundað djáknanám í Stokkhólmi og var vígð til starfa með börnum og unglingum í Hallgrímssókn jafnframt því að starfa að æskulýðsmálum fyrir biskupsembættið. Þriðja djáknavígslan sem Herra Sigurbjörn Einarsson annaðist var vígsla Arnar Bárðar Jónssonar. Hann var vígður sem djákni í helgihalds og fræðsluþjónustu í Grensáskirkju 23. september 1979. Örn Bárður fór síðar í embættisnám til prestsþjónustu og tók vígslu sem prestur. Tvær af þessum þremur fyrstu vígslum fóru fram í sóknarkirkju viðkomandi djákna og var gert ráð fyrir því formi á djáknavígslum við gerð Handbókar kirkjunnar 1981.


Þann 7. júní 1981 var Ragnheiður Sverrisdóttir vígð til þjónustu í sænsku kirkjunni í Dómkirkjunni í Uppsölum, en hún hafði lokið námi þar. Ragnheiður kom síðar til starfa í Fella og Hólakirkju í barna og unglingastarfi.
Það var síðan þann 12. febrúar 1995 að fyrsti hópur djákna sem hafði útskrifast úr Háskóla Íslands fékk vígslu. Var það jafnframt fyrsta djáknavígslan sem Herra Ólafur Skúlason annaðist. Vígslan fór fram í Dómkirkjunni samhliða prestsvígslu. Þar voru vígðar Brynhildur Ósk Sigurðardóttir til almennra safnaðarstarfa í Víðistaðasókn, Kristín Bögeskov til þjónustu eldri borgara í Nessókn, Rósa Kristjánsdóttir til þjónustu á Landsspítalanum, Sigríður Valdimarsdóttir til almennra safnaðarstarfa í Fríkirkjunni í Hafnarfirði og Valgerður Valgarðsdóttir til þjónustu á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

Næsta djáknavígsla var 22. desember 1995, en þá var Nanna Guðrún Zöega vígð í Dómkirkjunni í Reykjavík af Herra Ólafi Skúlasyni til þjónustu í Garða og Bessastaðasókn. Svala Sigríður Thomsen fékk vígslu í Dómkirkjunni 20. apríl 1997 af hendi Herra Ólafs Skúlasonar til þjónustu eldri borgara í Langholtskirkju. 13. júlí 1997 fékk Pétur Björgvin Þorsteinsson vígslu sem djákni í Vaihingen-prófastsdæmi í Þýskalandi en hann hafði stundað djáknanám þar í landi.

Þann 21. september 1997 voru tvær djáknavígslur, sín á hvorum staðnum. Herra Ólafur Skúlason vígði Halldór E. Guðmundsson í Dómkirkjunni í Reykjavík til þjónustu við Æskulýðssamband kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum og sr. Sigurður Sigurðarson vígslubiskup vígði Guðrúnu Eggertsdóttur í Skálholtsdómkirkju til þjónustu við söfnuðinn á Selfossi og Sjúkrahús Suðurlands. Guðrún var að líkindum fyrsta konan sem var vígð til starfa í Skálholtsdómkirkju. Næsta djáknavígsla var 7. febrúar 1999 í Dómkirkjunni. Guðrún K. Þórsdóttir var vígð til þjónustu við Félag aðstandenda Alsheimersjúklinga og Áskirkju, Lilja G. Hallgrímsdóttir var vígð til Keflavíkurkirkju, Ragnhildur Ásgeirsdóttir til þjónustu við Kristilegu skólahreyfinguna og Valgerður Hjartardóttir til þjónustu við Karitas heimahlynningu og Árbæjarkirkju. Vígsluna annaðist Herra Karl Sigurbjörnsson. 23. janúar 2000 var Þórdís Ásgeirsdóttir vígð til þjónustu við Lágafellssókn, vígsluna annaðist Herra Karl Sigurbjörnsson í Dómkirkjunni.


Önnur djáknavígslan á síðari tímum í Skálholtsdómkirkju var þann 13. ágúst 2000, en þá vígði sr. Sigurður Sigurðarson vígslubiskup Eygló J. Gunnarsdóttur til þjónustu við Selfosskirkju. Hrund Þórarinsdóttir var vígð til þjónustu við Laugarneskirkju þann 12. október 2000. Athöfnin fór fram í Dómkirkjunni í Reykjavík og það var Herra Karl Sigurbjörnsson sem annaðist hana. Hjúkrunarheimilið Sóltún kallaði þrjá einstaklinga til starfa í upphafi árs 2002, þau Fjólu Haraldsdóttur, Jóhönnu Kr. Gunnarsdóttur og Jón Jóhannsson. Þau voru vígð til starfa í Dómkirkjunni 6. janúar 2002  ásamt Ingunni Bj. Jónsdóttur sem var kölluð til starfa í Akureyrarkirkju. Herra Karl Sigurbjörnsson vígði hópinn. 10. nóvember 2002 vígði Herra Karl Sigurbjörnsson Grétu Konráðsdóttur til þjónustu Bessastaðasóknar. 29. júní 2003 var Magnea Sverrisdóttir vígð af Herra Karli Sigurbjörnssyni til þjónustu við barna og unglingastarf Hallgrímskirkju. Hjúkrunarheimilið á Vífilstöðum kallaði Dagnýju Guðmundsdóttur til starfa á árinu 2004. Hún var vígð til starfa af Herra Karli Sigurbjörnssyni 23. maí 2004.